154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:01]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Hvað varðar einstaklinga á hjúkrunarheimilum, þá rúmlega 150 einstaklinga sem þar dvelja en eru ekki eldra fólk, þá er þar um að ræða mál sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur haft á sinni könnu, er að vinna með og finna út úr í samstarfi við okkur. Hann er með starfshóp í gangi sem er að reyna að finna lausnir á þessu. Mér finnst einfaldlega brýnt að sú vinna haldi áfram og klárist. Þetta er eitt af fjórum atriðum sem við settum inn í samning við sveitarfélögin þegar við gengum frá áfanga í kostnaðarskiptingu í málefnum fatlaðs fólks nú fyrir áramótin, það var akkúrat þetta mál. Það er því ofarlega á forgangslistanum að reyna að finna frekari lausnir á þessu.

Hv. þingmaður spyr líka út í Múlalund, ástæðuna fyrir því að við erum að ráðast í breytingar þar. Múlalundur var alltaf hugsaður sem hæfingarstöð sem myndi þjálfa fólk út á vinnumarkaðinn. Það hefur því miður ekki gengið sem skyldi á undanförnum árum. Vinnumálastofnun hefur í allmörg ár verið í samtali við bæði eigendur og starfsfólk á Múlalundi til að reyna að finna leiðir en það hefur ekki gengið vel. Ég er því að vonast til þess núna að það gangi betur að finna nýjar leiðir fyrir Múlalund til að hann geti haldið áfram sínu starfi, alla vega að einhverju marki en í breyttri mynd. Ég vil síðan geta þess að sérfræðingar Vinnumálastofnunar hafa unnið hörðum höndum að því að finna fólki vinnu annars staðar og það hefur gengið vel.